Askja

Dagsferð úr Mývatnssveit

Ferðin í Öskju er 11-12 tíma löng dagsferð þar sem ekið er um stærsta ósnortna landsvæði Íslands. Umhverfið er ferðamönnum mjög framandi og nýstárlegt, svartir jökulsandar, hvítar vikurauðnir og gróðurvinjar inn á milli.
Slembival

Ekið er um Mývatnsöræfi til Herðubreiðarlinda og á leiðinni er gert stutt stopp við Gáska, lítinn fallegan foss í Grafarlandaá. Áð er í Herðubreiðarlindum og gengið að rústum kofa Fjalla-Eyvindar. Því næst er ekið sem leið liggur úr Lindum í Öskju. Á leiðinni er stansað við fossinn Gljúfrasmið, en þar grefur Jökulsá á Fjöllum sér tilkomumikil gljúfur í hraunbreiðuna. Einnig er stoppað á vikursöndunum sunnan Herðubreiðatagla þar sem geimfarar NASA æfðu sig fyrir tunglferðina 1969.

Komið er að Vikraborgum í Öskju um kl. 12.30 og þaðan er um hálftíma löng en auðveld ganga inn að Öskjuvatni og Víti . Hægt er að fara í bað í Víti og er það mjög vinsælt hjá ferðamönnum, þess ber að geta að bratt er ofan í Víti og ekki hægt að fara niður ef bleyta er. Í Öskju er dvalið í u.þ.b. 2 til 2 ½ klst. og ferðamönnum gefinn tími til að virða fyrir sér þessa einstöku náttúrusmíð. Á heimleiðinni er stansað við Drekagil og þaðan ekið um Herðubreiðarlindir sömu leið til Mývatns.

Smellið hér fyrir frekari upplýsingar um ferðina.